Í viðræðum um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins á síðasta ári féllst Evrópusambandið á að fella niður tolla á frosin síldarsamflök frá Íslandi. Samkvæmt samkomulaginu skyldu frosin síldarsamflök verða endurflokkuð í tollskrá Evrópusambandsins. Átti tollfrelsi í viðskiptum með íslensk síldarsamflök að koma til framkvæmda hinn 1. maí. síðastliðinn, samhliða stækkun Evrópusambandsins.

Utanríkisráðuneytið fékk hins vegar nýlega ábendingu um að ekki hefðu verið gerðar umsamdar breytingar á tollskrá Evrópusambandsins og væri því enn lagður 15% tollur á útflutning á frosnum síldarsamflökum frá Íslandi
til Evrópusambandsins. Í kjölfarið hefur utanríkisráðuneytið komið á framfæri mótmælum við Evrópusambandið um að ekki hafi verið staðið við
samkomulagið um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins.

?Við höfum fengið þær skýringar frá Evrópusambandinu að tæknileg vandkvæði, m.a. vegna tafa í þýðingum, hefði valdið því að hefur enn tekist að breyta tollskrá Evrópusambandsins í samræmi við ákvæði um stækkun
EES? sagði Bergdís Ellertsdóttir á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins í samtali við Stiklur , vefrit viðskiptaskrifstofu ráðuneytisins.

Bergdís sagði ennfremur að vonir stæðu til þess að tollfrelsi á síldarsamflök frá Íslandi myndi koma til framkvæmda eins fljótt og kostur er. ?Evrópusambandið hefur gefið okkur fyrirheit um að þetta verði lagfært og tollyfirvöld í aðildarríkjunum verða beðin um að leitast við að leysa málið hið fyrsta. Breytingar á tollskrá munu jafnframt verða afturvirkar og gilda frá og með 1. maí 2004. Eigi að síður eru þessar tafir bagalegar og mun
utanríkisráðuneytið fylgja því eftir að Evrópusambandið standi við það samkomulag sem gert var vegna stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins.?