Eins og greint var frá fyrr í dag er Ísland ekki á lista IMD business school yfir samkeppnishæfustu þjóðir heims 2008 eftir að hafa verið í sjöunda sæti listans árið 2007. Í frétt Businessweek um málið er staðhæft að það sé vegna efnahagsvandræða hér á landi og bágborinnar fjárhagsstöðu þeirra er sjá IMD fyrir upplýsingum, sem hér á landi er Viðskiptaráð. Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir fyrst og fremst tæknilegar ástæður liggja að baki því að Ísland sé ekki á listanum í ár.

Skýringar IMD

IMD sendi Viðskiptaráði rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun sinni að hafa Ísland ekki með í skýrslunni. Í orðsendingu IMD segir að að vandlega athuguðu máli hafi verið ákveðið að ekki sé viðeigandi að hafa Ísland með á listanum í ár. IMD séu ekki öruggir um að þeir hafi öll þau gögn sem máli skipta til að geta sagt til um stöðuna á Íslandi. Viðkvæm staða í íslensku efnahagslífi hafi vissulega spilað stórt hlutverk við ákvarðanatökuna, þar sem IMD hafi ekki viljað taka áhættuna á að niðurstaða þeirra yrði mistúlkuð ef þeir væru ekki 100% öruggir á að hafa kannað allt sem máli skiptir um landið. Slík staða gæti skaðað orðspor landsins og IMD skólans. Þeir segjast í lok tilkynningarinnar einnig bera ábyrgð gagnvart lesendum sínum og vilji eingöngu birta eitthvað sem þeir geta rökstutt með fullnægjandi hætti.

Fjarstæðukennt að Ísland sé ekki meðal 60 samkeppnishæfustu þjóða heims

Finnur Oddsson segir skýringu Businessweek á fjarveru Íslands af lista IMD ekki vera rétta. Finnur segir að rannsóknin sé unnin þannig að send sé rafræn könnun á um 300 stærstu fyrirtæki landsins og svo sé unnið upp úr þeim svörum sem fást. Í ár hafi könnunin verið send út í mars, og aðstæður þá hafi orðið til þess að mjög lélegt svarhlutfall náðist frá fyrirtækjum landsins.

„Viðskiptaráð sendi könnunina út fyrir IMD eins og áður en fór hins vegar ekki í það með IMD að vinna úr gögnunum sem bárust. Ástæður þess voru einfaldlega að áhugi á könnun IMD hefur farið dvínandi og ráðið taldi kröftum sínum betur varið í öðrum verkefnum. Engu að síður veitti ráðið IMD fullan stuðning við annan undirbúning og framkvaemd könnunarinnar. Enn fremur var IMD tilkynnt um þessa tilhögun með góðum fyrirvara og hefði því með auðveldum hætti getað aflað sér annars samstarfsaðila við úrvinnslu gagna. Við birtingu niðurstöðu könnunarinnar töldu IMD þau gögn sem fyrir hendi voru ónákvæm vegna þess lága svarhlutfalls sem fékkst og tóku því þá ákvörðun að Ísland yrði ekki meðal þátttökuþjóða á listanum í ár. Þetta var talinn vænlegri kostur en að birta ónákvæmar upplýsingar um landið, sem er að okkar mati ábyrg niðurstaða“ sagði Finnur í samtali við Viðskiptablaðið.

„Það er hins vegar mikilvægt að það sé haft í huga að ástæða þess að Ísland er ekki á listanum í ár er fyrst og fremst tæknileg. Með þessu er ekki verið að endurmeta samkeppnishæfi Íslands, enda er fjarstæðukennt að halda því fram að Ísland sé ekki meðal 60 samkeppnishæfustu landa í heiminum.“

Áhrif þess að vera ekki inni á listanum

Aðspurður að því hvaða áhrif það hefur að Ísland detti út af lista IMD segir Finnur það að miklu leyti fara eftir því hvernig ástæður þess eru kynntar. „Það er auðvitað óheppilegt að Ísland sé sagt hafa dottið út þegar hið rétta er að Ísland var i raun einfaldlega ekki meðal þátttökuþjóða í ár. Það var ákvörðun IMD og lítið við því að segja. Það er mikilvægt að það komi skýrt fram að það er vegna tæknilegra ástæðna en ekki vegna þess að dregið hafi úr samkeppnishæfni landsins. Könnunin hjá IMD er góð en hins vegar gerir World Economic Forum einnig slíka könnun á samkeppnishæfni þjóða sem birtist á næstu mánuðum og það verður spennandi að sjá hvar Ísland lendir á þeirra lista“ sagði Finnur að lokum.