Útflutningsráð Íslands og Ferðamálastofa hafa fengið ParX Viðskiptaráðgjöf IBM til að rannsaka viðhorf meðal almennings til Íslands í þremur löndum: Bretlandi, Þýskalandi og Danmörku en löndin eru meðal stærstu viðskiptamarkaða Íslands.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu.

Þar kemur fram að markmið rannsóknarinnar er að byggja upp hagnýt viðmið sem nýtast við mat og uppbyggingu á ímynd landsins. Í því samhengi verður viðhorf almennings til lands og þjóðar metið sem og viðhorf til íslenskrar vöru, þjónustu og til landsins sem áfangastaðar fyrir ferðamenn.

„Mikil umræða hefur verið á síðustu mánuðum um að ímynd Íslands hafi beðið hnekki á alþjóðavettvangi í kjölfar bankahrunsins og hana þurfi að bæta,“ segir í tilkynningunni.

„Ímynd er margslungið fyrirbæri en ein af birtingarmyndunum er upplifun almennings. Náttúra landsins hefur jafnan haft vinninginn þegar viðhorf til landsins hafa verið könnuð á erlendri grundu. Stöndum við núna frammi fyrir því, þegar landið er nefnt á nafn að gjaldþrot þjóðar sé það fyrsta sem kemur upp í hugann? Þessum spurningum og fleirum verður reynt að svara með rannsókninni.“

Þá kemur fram að fáar viðhorfsrannsóknir hafa verið gerðar um Ísland en samstarfsverkefnið Iceland Naturally hefur þó staðið fyrir slíkum rannsóknum í Bandaríkjunum og Evrópu.

Þá lét Ferðamálastofa gera viðhorfsrannsókn til Íslands og hvalveiða í fimm löndum árið 2007. Þessar rannsóknir verða notaðar til viðmiðunar og samanburðar. Niðurstaðna er að vænta í apríl.

Í framhaldinu verður síðan horft til þess hvort fleiri rannsóknir verði framkvæmdar eða aðrir markhópar skoðaðir.