Lán nokkurra stjórnenda og lykilstarfsmanna VBS fjárfestingabanka voru lengd til ársins 2017 á því tímabili sem bankinn var ógjaldfær en fékk að starfa vegna 26 milljarða króna ríkisláns. Hópur kröfuhafa er mjög óánægður með að VBS hafi fengið að lifa jafn lengi og bankinn gerði.

Tíminn sem VBS fjárfestingabanki vann með tekjufærslu ríkislánsins var einnig nýttur til að færa eignir með verðgildi til valdra kröfuhafa, meðal annars til skilanefndar Landsbankans. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að slitastjórn VBS hafi sent skilanefnd Landsbankans riftunarbréf vegna þessa og krafið hana um 4,3 milljarða króna greiðslu.Bréfið var sent fyrr í þessari viku.

Endurskoðunarfyrirtækið Ernst&Young hefur unnið að því í nokkra mánuði að fara yfir málefni tengd bankanum. Tilgangur þeirrar úttektar er meðal annars að kanna hvort tilefni sé til þess að rifta einstaka gjörningum sem framkvæmdir voru á síðustu mánuðum fyrir fall bankans. Þar er meðal annars horft til breytinga á launasamningum starfsmanna.