Að sögn Jóns Diðriks Jónssonar hyggjast forráðamenn Garðarshólma, sem áttu hæsta tilboð í afþreyingarfélagið Senu, taka sér mánaðartíma í að framkvæma áreiðanleikakönnun á félaginu.

Jón Diðrik sagði að ekki stæði til að gera miklar breytingar á grunnstarfsemi félagsins.

„Við sjáum ekki fram á að gera miklar breytingar á félaginu. Grunnur félagsins er mjög sterkur og við höfum áhuga á samsetningu félagsins eins og það er. Það er sterkt stjórnendateymi sem verður þarna áfram. Áherslan verður á að styrkja grunninn í félaginu og takast á við erfitt rekstrarumhverfi," sagði Jón Diðrik.

Sena rekur verslanir Skífunnar og kvikmyndahúsin Smárabíó, Háskólabíó, Regnbogann og Borgarbíó Akureyri.