Fasteignafélagið Samson Properties, sem er í eigu Björgólfsfeðga, hefur tekið þátt í kaupum á finnsku fasteignasafni að virði 377,5 milljónir evra, eða 34,5 milljarðar króna, stuttu eftir að félagið varð á láta í minni pokann fyrir finnska fasteignafélaginu Sponda í einkavæðingu á fasteignafélaginu Kapiteeli. Seljandinn err fjárfestingsjóðuirnn CapMan, sem greindi frá kaupunum á miðvikudaginn.

Viðskiptablaðið greindi frá því í október að kauptilboði í Samson Properties í fasteignafélagið Kapiteeli hefði verið hafnað. Kauptilboð Samson Properties var mun hærra en kauptilboð keppinautarins Sponda og nam 1,3 milljörðum evra, eða um 119 milljörðum íslenskra króna, að skuldum meðtöldum. Sveinn Björnsson, framkvæmdastjóri Samson Propterties, gagnrýndi ákvörðun stjórnvalda í október en sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær að Samson myndi ekki höfða mál gegn finnska ríkinu á næstunni.

"Við munum ekki fara með málið lengra að svo stöddu," sagði Sveinn, en hann sagði í samtali við finnska fjölmiðla fyrir tveimur mánuðum að Samson Properties hefði áhuga á að leita réttar síns. Fjármálaráðuneyti Finnlands hefur neitað því að ekki hafi verið farið eftir settum reglum við einkavæðinguna, en finnska ríkið á 33% hlut í kaupandanum Sponda. Ráðuneytið bendir á að aðrir þættir, auk verðs, hafi leitt til þess að kauptilboði Sponda hafi verið tekið í stað hærra tilboðs frá Samson Properties. Hins vegar segja heimildarmenn viðskiptablaðsins Kauppalehti að finnskir stjórnmálamenn hafi ekki viljað selja Kapiteeli til Íslendinganna og telja pólitískar ástæður að baki ákvörðunar ríkisins.

Sveinn segir að kaupin á miðvikudaginn séu stærstu einstöku viðskipti félagsins til þessa. Samson mun eiga 60% eignasafnsins og samstarfsaðilar félagsins, Royal Bank of Scotland og finnska fjárfestingafélagið Ajanta, munu eiga sitt hvorn 20% hlutinn. Kaupin eru að hluta til fjármönuð með lánum frá Royal Bank of Scotland.

Hann segir Samson Properties aðallega horfa til fjárfestinga á Norðurlöndum og Austur-Evrópu. Félög tengd Björgólfi Thor hafa fjárfest töluvert í fasteignum í Búlgaríu og búlgarska félagið Landmark Properties er að hluta til í eigu Samson Properties. Björgólfur Thor tengist einnig búlgarska fasteignafélaginu Sigma Capital, sem stefnt er að skrá í kauphöllina í London, og talið er að væntanlegt markaðsvirði félagsins sé á bilinu 300 milljónir evra.