Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra kveðst aðspurður ekki ætla að vera með neinar getgátur um pólitískar afleiðingar þess verði Icesave-samningnum hafnað á Alþingi.

„Ég hef alltaf sagt að þessi ríkisstjórn hafi ekki verið mynduð um Icesave-samningsdrög," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Sjálfur kveðst hann ætla að fara yfir þessi mál á yfirvegaðan og faglegan hátt.

Frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave var afgreidd frá ríkisstjórn á sérstökum aukafundi hennar í morgun. Gert er ráð fyrir því að málinu verði dreift á Alþingi í dag.

Hefjum okkur yfir flokkslínur

Óvissa ríkir um afdrif frumvarpsins á þinginu í ljósi þess að nokkrir þingmenn Vinstri grænna hafa lýst yfir efasemdum um málið. Í þeim hópi er Ögmundur.

„Málið er komið inn á þingið og fær þar þingræðislega umfjöllun. Ég held að krafan standi á okkur öllum - óháð flokkslínum - að setja okkur mjög vel inn í málið, kanna málavexti í þaula, hefja okkur yfir flokkslínur og taka afstöðu til þessa máls sem Íslendingar. Um stórt mál er að ræða sem snertir okkur öll í nútíð og framtíð," segir Ögmundur.

Spurður hvort hann sé með  þessu að höfða til stjórnarandstöðunnar að samþykkja málið svarar hann: „Ég er bara að horfa í eigin barm og hvernig eigi að nálgast þetta mál. En ég ætlast að sjálfsögðu til þess að við gerum það öll; vegum og metum alla kosti í þessari stöðu sem við erum í."

Engin málamyndaumræða

Spurður hvort hann telji líkur á því að málið verði fellt á þingi í ljósi efasemdarradda innan þingflokks VG svarar hann: „Þær hafa flestar verið á þá lund að fólk ætlar að skoða málið ofan í kjölinn. Nú gefst þinginu tækifæri til þess. Þingnefndir munu fara yfir málið og það verða kallaðir til gestir sem hafa skoðað þessi mál frá ýmsum sjónarhólum. Ég lít svo á að sú umræða eigi ekki að vera til málamynda heldur verði málið í alvöru tekið til gagngerrar skoðunar með það fyrir augum að komast að niðurstöðu sem er best fyrir Ísland."

Uppfært klukkan 17.: Frumvarpinu verður í fyrsta lagi dreift á þingi  á morgun, þriðjudag. Þingflokkur VG samþykkti frumvarpið til þinglegrar meðferðar í dag en þingflokkur Samfylkingarinnar á eftir að gera það.