Afkoma TM á fyrsta ársfjórðungi verður „umtalsvert verri“ en áður útgefin spá hafði gert ráð fyrir. Áætlanir gera ráð fyrir því að tap TM verði um einn milljarður króna og áhrifin á Lykil um 400 milljónir. Þetta kemur fram í afkomuviðvörun sem félagið hefur sent Kauphöllinni.

Í tilkynningunni segir að orsökin sé meðal annars sá efnahagssamdráttur sem fylgt hefur vegna Covid-19 faraldursins og þeim erfiðleikum sem fylgt hafa í rekstri annarra fyrirtækja af þeim sökum. Hins vegar má rekja samdráttinn til „óhagfelldrar tjónaþróunar“, sem rekja má til vályndra veðra í upphafi árs, líkt og það er orðað í tilkynningunni. Afleiðinganna gætir á öllum sviðum hjá TM.

„Vegna áhrifa Covid-19 faraldursins og óvissu í ferðaþjónustu hefur framlag í afskriftareikning vegna væntra tapaðra viðskiptakrafna og útlána verið aukið hjá TM, auk þess sem gerðar hafa verið ákveðnar varúðarfærslur á óskráðum eignum. Með sama hætti er gert ráð fyrir verulega auknu framlagi í afskriftareikning útlánasafns Lykils fjármögnunar,“ segir í tilkynningunni. Áður birt rekstrarspá hefur verið felld úr gildi sökum þessa.

Í tilkynningunni segir enn fremur að þrátt fyrir þetta sé staða TM og Lykils mjög sterk. Reksturinn sé traustur og gjaldþol samstæðunnar sé um 19 milljarðar króna.