Tryggingamiðstöðin hefur bætt möguleika á áfallahjálp við Heimatryggingar sínar. Hjálpin er boðin í samvinnu við sálfræðistofuna Líf og sál. Hún er ætluð fyrir þá viðskiptavini TM sem finna fyrir andlegum erfiðleikum sem þeir telja sig þurfa hjálp við eftir að hafa orðið fyrir áföllum. Ekkert annað íslenskt tryggingafyrirtæki býður áfallahjálp og þessi þjónusta er jafnframt sjaldgæf á  heimsvísu.

Í fréttatilkynningu vegna þessa segir að áfallahjálpin býðst ef vátryggður hefur lent í yfirvofandi lífshættu, lent í alvarlegu slysi eða átt hlut að slíku slysi á beinan eða óbeinan hátt. Einnig ef brotist er inn á heimili vátryggðs, heimili hans verður fyrir stórtjóni, hann lendir í háska vegna eldsvoða, eða greinist með alvarlegan sjúkdóm. Hjálpin stendur líka til boða ef börn, maki eða foreldrar hans greinast með alvarlegan sjúkdóm, lenda í alvarlegum slysum eða láta lífið. Áfallahjálpin stendur viðskiptavinum til boða óháð búsetu. Hún býðst vátryggðum vegna bótaskyldra tjónsatvika sem verða á Íslandi og á ferðalagi erlendis í ferð innan ákveðinna tímamarka. Félagið greiðir tvö fyrstu viðtöl hjá meðferðaraðilum áfallahjálpar sem það sér um að útvega.

Hjálpinni er ekki ætlað að koma í staðinn fyrir áfallateymi sem aðstoða þegar slys verða heldur er hún veitt síðar. Í samningi TM og sálfræðistofunnar Lífs og sálar er áfallahjálp skilgreind: „Áfallahjálp er sálfræðilegur stuðningur við einstaklinga eða hópa sem fundið hafa fyrir sterkri vanlíðan eða ótta vegna tjónsatviks sem er svo ógnandi eða yfirþyrmandi að ætla má að fólki muni reynast erfitt að vinna úr henni án aðstoðar.“

Hin nýja þjónusta er til komin vegna óska viðskiptavina og er einnig í samræmi við þá stefnu TM að aðstoða fólk við að jafna sig að fullu eftir slys og áföll. Starfsfólk tjónadeildar félagsins fær í hverri viku til sín fólk sem hefur lent í áföllum á borð við bruna, rán og alvarleg slys. Það hefur því orðið vitni að því hve langvarandi áhrif áföll geta haft á fólk.