Hópur lífeyrisssjóða, sjóðir Íslandsbanka og fjármálafyrirtækin Virðing og Auður Capital greiða Stoðum (áður FL Group) um 6,6  milljarða króna fyrir 60% hlut í Tryggingamiðstöðinni (TM). Miðað við kaupverðið er heildarvirði TM 11 milljarðar króna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Kaupverð var ekki gefið upp þegar greint var frá sölunni í síðustu viku.

Þetta er í lægri kantinum miðað við áætlað mat Viðskiptablaðsins á virði TM í umfjöllun blaðsins í desember í fyrra. Þar var verðið talið geta legið á bilinu níu og upp í 13,2 milljarða króna. Þó var ekki útilokað að verðmætið væri meira vegna aukningar félagsins á eigin fé í fyrra. Allir núverandi eigendur félagsins stefna að skráningu þess á hlutabréfamarkað í vetur eða eins fljótt og aðstæður leyfa.