Stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar hefur ákveðið að auka hlutafé félagsins um 16,9% í þeim tilgangi að fá matseinkun Nemi hækkuð eins og kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Stjórn TM hefur ákveðið að boða til hluthafafundar þann 26. september næstkomandi. Á fundinum verður til umfjöllunar tillaga stjórnar um útgáfu nýrra hluta að nafnverði kr. 157.894.737. Stjórn TM leggur til að söluverð hvers hlutar verði kr. 38,-. Samið hefur verið við Glitni hf. um sölutryggingu fyrrgreindrar hlutafjáraukningar.

Nýlega gaf TM út víkjandi skuldabréf vegna kaupa á Nemi Forsikring ASA.

Matsfyrirtækið Standard & Poor's taldi þá útgáfu ekki svo úr garði gerða að hún fullnægði þeim kröfum sem S&P gerðu. Þetta hafði þau áhrif að matseinkunn Nemi lækkaði úr BBB í BBB- Matseinkunn er mikilvæg í alþjóðaviðskiptum og til að tryggja að Nemi geti tekið þátt í þeim af fullum þunga eins og hingað til og að ekki verði vafi um einkunnina hefur þessi ákvörðun um hlutafjáraukninguna verið tekin. TM væntir þess að einkunn Nemi muni færast til fyrra horfs í framhaldinu segir í tilkynningu félagsins.

Tryggingamiðstöðin hf. hefur nú þegar eignast yfir 90% hlutafjár í Nemi og fljótlega hefst innköllun á eftirstöðvum hlutfjárins í Noregi. Gert er ráð fyrir að TM taki við rekstri norska félagsins þegar því ferli lýkur eða innan 4 vikna.

Straumur ?Burðaðrás hf., er ráðgjafi TM við kaupin á Nemi.