Með samþykkt Fjármálaeftirlitsins á því að TM færi með virkan eignarhlut í Lykli fjármögnun sem gerð var 23. desember síðastliðin hafa allir þrír fyrirvararnir við viðskiptunum verið uppfylltir að því er félagið hefur tilkynnt um. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hafa áður stjórn félagsins og svo Samkeppniseftirlitið samþykkt viðskiptin , en kaupverðið nemur 9.250 milljónum króna.

Því var lokið við kaupin í dag, 7. janúar 2020, með greiðslu kaupverðsins, að undanskildu því sem nemur hagnaði Lykils á síðasta ári , og er félagið því nú orðið hluti af samstæðu TM, sem áður hét Tryggingamiðstöðin.

Jafnframt var ný stjórn kosin í félaginu en í henni eru þau:

Aðalmenn:

  • Sigurður Viðarsson forstjóri TM verður formaður stjórnar
  • Óskar Baldvin Hauksson
  • Markús Hörður Árnason
  • Örvar Kærnested
  • Kristín Friðgeirsdóttir

Varamenn:

  • Bjarki Már Baxter
  • Bryndís Hrafnkelsdóttir

Sigurður Viðarsson forstjóri TM hefur sagt að með kaupunum á Lykli og viðskiptabankaleyfi fyrirtækisins verði komið í höfn verði félagið að banka og tilbúið að skora stóru bankana á hólm.

„Það er góð byrjun á árinu að stíga það skref að ljúka við kaupin á Lykli eins og stefnt var að. Kaupin munu styrkja samstæðuna, auka hagnað til hluthafa og skapa spennandi tækifæri í vátrygginga- og fjármálaþjónustu á næstu misserum,“ segir Sigurður.

„Við erum þakklát fyrir þann stuðning sem við fengum frá hluthöfum í ferlinu og hlökkum til næstu skrefa í þróun samstæðunnar. Það er skemmtileg áskorun að leiða saman þessi tvö félög og markmið okkar er að nýta styrkleika hvors fyrir sig og með öflugum hópi starfsmanna sækja fram í fjármálaþjónustu til einstaklinga og fyrirtækja. Það eru spennandi tímar framundan.“

Jón Örn Guðmundsson, forstjóri Klakka, seljanda fyrirtækisins:

„Þetta eru tímamót í sögu félags sem á meira en þriggja áratuga langa sögu í fjármögnun bíla- og atvinnutækja hér á landi. Lykill er mjög sterkt félag á íslenskum fjármögnunarmarkaði og það er ánægjulegt fyrir alla sem komu að endurskipulagningu þess á sínum tíma að sjá það vaxa og dafna.

Þessi niðurstaða er góð fyrir kröfuhafa og hluthafa Klakka. Hún er auk þess ánægjuleg fyrir starfsfólk Lykils sem fær nú framtíðareiganda og hefur nýja og spennandi vegferð með TM. Þá munu viðskiptavinir TM og Lykils í kjölfar viðskiptanna fá aðgang að enn fjölbreyttari þjónustu tengdri bílatryggingum og fjármögnun, allri á einum stað.“

Ráðgjafar TM í viðskiptunum voru BBA // Fjeldco, Deloitte og KPMG.