Stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) hefur ákveðið að flytja höfuðstöðvar félagsins að Síðumúla 24 í Reykjavík.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu en eins og greint var frá í vikunni keypti Landic Protperty nýlega eignir TM í Aðalstræti þar sem TM er nú til húsa.

„Við flutningana mun aðgengi viðskiptavina að þjónustu á höfuðborgarsvæðinu taka stakkaskiptum. Öll þjónusta mun verða á jarðhæð og gott aðgengi fyrir viðskiptavini,“ segir í tilkynningunni.

Miðað er við að starfsemin geti hafist á nýjum stað um næstu áramót.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM segir í tilkynningunni að félagið líti á þessa flutninga á höfuðstöðvunum sem mikið tækifæri í að veita viðskiptavinum TM á höfuðborgarsvæðinu enn betri þjónustu.

„Aðgengi að skrifstofum okkar í Aðalstræti hefur verið ófullnægjandi meðal annars vegna skorts á bílastæðum og því er mikilvægt að hafa fundið okkur nýjan stað sem liggur miðsvæðis í höfuðborginni,” segir Sigurður.