Samanlagður hagnaður tryggingafélaganna TM, VÍS, Sjóvá og Varðar var 6,2 milljarðar króna á síðasta ári og jókst um 31% á milli ára. Mest hagnaðist TM á árinu eða um 2,8 milljarða króna en hann jókst um 67% á milli ára. Minnstum hagnaði skilaði Sjóvá eða 657 milljónum króna og dróst hann saman um 38% á milli ára. Hægt er að sjá sundurliðaða afkomu félaganna í grafinu hér fyrir neðan.

Athygli vekur að fjárfestingatekjur allra félaganna hækka umtalsvert frá árinu 2014 til 2015. Hjá stærstu þremur tryggingafélögunum, TM, Sjóvá og VÍS, voru þær í kringum fjóra milljarða hjá hvoru félagi fyrir sig á meðan þær numu rúmum milljarði hjá Verði. Mesta aukningin í fjárfestingatekjum var hjá Sjóvá eða um 256% hækkun en þar á eftir hækkuðu fjárfestingatekjur Varðar mest eða um 161% frá árinu 2014 til 2015.

Athygli vekur að samsett hlutfall allra félaganna er yfir 100% á síðasta ári. Samsett hlutfall er skilgreint sem tjónakostnaður og rekstrarkostnaður sem hlutfall af iðgjöldum. Ef það er yfir 100% þá er rekstrarkostnaðurinn hærri en iðgjöld viðkomandi tryggingafélags. Í uppgjörum þeirra allra kemur fram að árið 2015 hafi verið tjónaþungt og jukust eigin tjón hjá þeim öllum á milli ára þótt aukningin hafi verið mismunandi.