Tryggingamiðstöðin (TM) hagnaðist um rúma 3,4 milljarða króna í fyrra samanborið við 764,6 milljóna króna hagnað árið á undan. Forstjórinn Sigurður Viðarsson er ánægður með afkomuna enda er hún meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Í uppgjörinu kemur fram að eigin iðgjöld TM námu rúmum 10,2 milljörðum króna sem er um 82 milljóna króna hækkun á milli ára. Þá námu fjárfestingartekjur tæpum 3,6 milljörðum króna samanborið við tæpa 1,4 milljarða árið 2010. Heildartekjurnar námu 13,9 milljörðum króna en þær voru tæpir 11,6 milljarðar árið á undan.

Á sama tíma nam tjónakostnaður rúmum 7,2 milljörðum króna sem er er næstum hálfum milljarði minna en árið á undan.

Heildareignir TM námu við lok síðasta árs 29,3 milljörðum króna og nam eigið fé 12,2 milljörðum í lok árs. Skuldir námu 17 milljörðum en félagið greiddi upp skuldabréfaflokk upp á 4,4 milljarða í ágúst í fyrra. Eiginfjárhlutfall stóð í 42% við áramót en var 29,9% ári fyrr.

Unnið að sölu á TM

Fram kom í máli Júlíusar Þorfinnssonar, stjórnarformanns TM, á aðalfundi tryggingafélagsins í dag, að söluferli á hlutabréfum Stoða í félaginu hefjist á næstu dögum. Stoðir eiga í kringum 98% hlut í TM. Viðskiptablaðið greindi nýverið frá því að Landsbankinn sölutryggi hlutinn.