TM hagnaðist um 5,3 milljarða króna á síðasta ári, samanborið við 1,9 milljarða króna hagnað árið 2019. Ávöxtun fjárfestinga á árinu 2020 var 14,8% og afkoma vátrygginga var jákvæð um 1.158 milljónir króna, samanborið við 644 milljónir króna árið 2019. Samsett hlutfall var 94,1% á síðasta ári og batnaði nokkuð milli ára, en samsett hlutfall ársins 2019 var 98,1%. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu félagsins til Kauphallarinnar .

Eigin iðgjöld drógust saman um 3,4% á árinu, fyrst og fremst vegna minnkandi umsvifa í erlendum skipatryggingum og áhrifa COVID-19 á viðskiptavini félagsins í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Á sama tíma lækkuðu eigin tjón tímabilsins um 10,7% og munaði þar mestu um tjón í skipatryggingum. Ökutækjatjón lækkuðu einnig milli ára, en tjón í eignatryggingum og ábyrgðartryggingum þróuðust til verri vegar.

Kröftugur viðsnúningur

„Það er ánægjulegt að sjá kröftugan viðsnúning á fjórða ársfjórðungi hjá TM. Allar stoðir samstæðunnar skila jákvæðri afkomu og niðurstaðan er hagnaður upp á rúma tvo milljarða. Þrátt fyrir nokkurn samdrátt í iðgjöldum milli ára skilar lækkun eigin tjóna góðri niðurstöðu í vátryggingum og fjármögnunarstarfsemi skilar einnig hagnaði á fjórðungnum. Fjárfestingar félagsins skila framúrskarandi niðurstöðu á fjórðungnum, einkum vegna hagstæðrar þróunar á innlendum hlutabréfamarkaði.

Afkoma og starfsemi ársins 2020 var eðlilega lituð af COVID-19 faraldrinum. Iðgjöld í ferðaþjónustu og tengdum greinum drógust verulega saman, ásamt því sem bregðast þurfti við greiðsluvanda fyrirtækja með færslum í virðisrýrnun útlána. Fjármögnunarstarfsemi skilaði hagnaði á árinu, þrátt fyrir þær áskoranir sem fólust í faraldrinum og margvíslegum einskiptiskostnaði sem leiddi af kaupum TM á Lykli. Það verður að teljast góður árangur á krefjandi ári.

Niðurstaða ársins er hagnaður upp á rúma 5,3 milljarða króna, sem er afar góður árangur á ári sem einkenndist af mikilli óvissu og óvenjulegum aðstæðum.

Fyrir dyrum stendur nú samruni TM, Lykils og Kviku banka. Stefnt er að því að samruninn komi til framkvæmda á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og ljóst að með honum verður til mjög öflugt félag sem verður í stakk búið að bjóða einstaklingum og fyrirtækjum framúrskarandi fjármálaþjónustu á öllum sviðum. Við göngum full tilhlökkunar til þess verkefnis," er haft eftir Sigurði Viðarssyni, forstjóra TM, í tilkynningunni.

Reikna með 3,6 milljarða hagnaði í ár

Í tilkynningunni segir að áætlað sé að hagnaður ársins 2021 verði um 3,6 milljarðar króna.

Rekstrarspá félagsins fyrir árið 2021 geri ráð fyrir mun betra jafnvægi í afkomu vátrygginga-, fjárfestinga- og fjármögnunarstarfsemi samstæðunnar, auk lækkunar rekstrarkostnaðar. Samsett hlutfall vátrygginga sé áætlað um 94%, ávöxtun fjárfestinga um 8,9% og afkoma fjármögnunar um 414 milljónir króna.