Rekstrarhagnaður TM nam 1,65 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 1,5 milljarða rekstrartap á fyrstu þremur mánuðum ársins. Hagnaður tryggingafélagsins nam rúmum 1,5 milljörðum á öðrum fjórðungi ársins.

Eigin iðgjöld félagsins voru rétt undir fjórum milljörðum á tímabilinu og lækkuðu um 1% milli ára sem það rekur til samdráttar í ferðaþjónustu og stefnu félagsins um að draga úr umsvifum í erlendum skipatryggingum. Hreinar tekjur af fjármögnunarstarfsemi voru um 402 milljónir á tímabilinu sem er 25% samdráttur frá fyrra ári. Heildartekjur TM voru rétt undir sex milljörðum og drógust saman um 2,8% milli ára.

Þrátt fyrir stórt brunatjón sem varð í Hrísey í maí lækka eigin tjón um 6,2% á fjórðungnum, sem skilar lækkun samsetts hlutfalls á tímabilinu. Samsett hlutfall á fjórðungnum var 88,9% samanborið við 92,2% á öðrum ársfjórðungi 2019. Eignir félagsins námu 81,8 milljörðum í lok júní.

Góð afkoma af hlutabréfum

Fjárfestingatekjur námu 1,4 milljörðum á öðrum ársfjórðungi sem jafngildir 5,4% ávöxtun. Það er besta ávöxtun fjáreigna á einum ársfjórðungi frá því að félagið var skráð aftur á markað árið 2013. Til samanburðar þá námu fjárfestingatekjur félagsins 11 milljónum á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Góð afkoma var af skráðum og óskráðum hlutabréfum, en afkoma af þessum eignaflokkum skýrir rúmlega helming af fjárfestingatekjum fjórðungsins. Ávöxtun skráðra hlutabréfa var 18,6% á tímabilinu. Góð ávöxtun af óskráðum hlutabréfum skýrist af eignarhlutum í Eyri og S121. Á fjórðungnum voru gerðar ákveðnar varúðarfærslur á fasteignatengdum verkefnum vegna efnahagsóvissunnar.

Lykill tapaði 354 milljónum á fyrri helmingi ársins. Hreinar vaxtatekjur félagsins voru 544 milljónir á tímabilinu. Virðisrýrnun leigusamninga og útlána til viðskiptamanna nam 667 milljónum samanborið við 71 milljón á fyrstu sex mánuðum 2019.

Fjárfesting í bílum og tækjum var mikil á öðrum ársfjórðungi, sem skilaði sér í góðum vexti nýrra útlána hjá Lykli til ökutækjakaupa. Júní var stærsti mánuður í sögu Lykils, sem TM keypti fyrr á árinu, þegar kemur að nýjum útlánum til kaupa á ökutækjum.

„Eftir afar erfiðan fyrsta ársfjórðung sveiflaðist afkoma TM á öðrum fjórðungi til hins betra. Afkoma fjárfestinga á fjórðungnum var mjög góð, jákvæð um 1.384 m.kr., sem má einkum rekja til góðrar ávöxtunar innlendra hlutabréfa,“ er haft eftir Sigurði Viðarssyni, forstjóra TM, í tilkynngu félagsins.

„Jákvæð teikn mátti sjá í vátryggingastarfsemi á fjórðungnum og almennt fer tjónatíðni lækkandi. Stórtjón setja mark sitt á uppgjör fjórðungsins, en þrátt fyrir það var samsett hlutfall á tímabilinu tæp 89% og lækkaði nokkuð frá síðasta ári.

Afkoma Lykils batnaði sömuleiðis til muna á fjórðungnum, enda fyrsti ársfjórðungur litaður af áhrifum COVID-19 faraldursins og einskiptiskostnaði vegna kaupa TM á Lykli. Sumarmánuðirnir hafa verið líflegir í nýjum útlánum hjá félaginu og staða leigusamninga og útlána jókst um 9% á fyrri árshelmingi.

Á fjórðungnum hefur verið unnið náið með fjölda viðskiptavina vegna greiðsluvanda, einkum fyrirtækjum í ferðaþjónustu og tengdum atvinnugreinum, greiðslufrestir veittir og svigrúm skapað til að leita lausna. Horfur eru á að slík verkefni verði nokkuð umfangsmikil á komandi mánuðum.“