Tryggingamiðstöð Íslands hf. hagnaðist um 217 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi borið saman við 810 milljónir á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins . Dróst hagnaður TM því saman um 73% milli ára.

Fyrstu níu mánuði ársins hagnaðist TM um 2.092 milljónir en hagnaðist um 1.984 milljónir á sama tímabili í fyrra. Jókst hagnaður TM því um 5% á tímabilinu milli ára.

Eigin iðgjöld TM voru 4.049 milljónir á þriðja ársfjórðungi og jukust um 6% milli ára. Eigin tjón voru 3.037 milljónir og jukust um 14% milli ára. Þá námu fjárfestingartekjur 41 milljón á tímabilinu borið saman við 546 milljónir á sama tíma í fyrra, sem jafngildir 93% samdrætti. Heildartekjur voru 4.098 milljónir á tímabilinu og heildargjöld 3.844 milljónir.

Fyrstu níu mánuði ársins voru eigin iðgjöld 11.278 milljónir og jukust um 6% milli ára. Eigin tjón voru hins vegar 9.116 milljónir og jukust um 18% milli ára. Fjárfestingartekjur námu 2.635 milljónum og jukust um 31% milli ára. Heildartekjur voru 13.944 milljónir á tímabilinu en heildargjöld 11.807 milljónir.

Samsett hlutfall TM á þriðja ársfjórðungi var 92%. Sé litið til síðustu 12 mánaða er samsett hlutfall 103% og kostnaðarhlutfall 20%. Spá félagsins gerir ráð fyrir að samsett hlutfall ársins 2017 verði 101%.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM:

„Afkoma TM á þriðja ársfjórðungi var vel viðunandi í ljósi erfiðra aðstæðna á fjármálamörkuðum. Afkoma af vátryggingastarfsemi var góð þar sem samsett hlutfall var 92%. Ávöxtun fjárfestingaeigna var jákvæð sem verður að teljast góður árangur á sama tíma og innlendi markaðurinn lækkaði nokkuð. Rekstrarspá félagsins til næstu 12 mánaða hefur verið uppfærð þar sem gert er ráð fyrir 95% samsettu hlutfalli af vátryggingastarfsemi og 9,7% ávöxtun fjárfestingaeigna.“