Vátryggingafélagið TM hagnaðist um 979 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi, en á sama tíma á fyrr ári tapaði samsteypan 251 milljón. Heildarhagnaður samsteypunnar á fyrstu níu mánuðum ársins var 3,2 milljarðar króna, samanborið við 1,5 milljarð árið áður.

Rekstrarhagnaður á fyrstu níu mánuðum ársins nam 1,2 milljónum króna, en umtalsvert hærri heildarhagnaður kemur til af undirverði vegna kaupa á Lykli fjármögnun sem fært var í rekstrarreikning á fyrsta ársfjórðungi.

Samsett hlutfall vátrygginga var 89,2% á þriðja ársfjórðungi og batnar frá fyrra ári, en þá var hlutfallið 93,6%. Munar þar mestu um lækkað stórtjónahlutfall, en síðasta ár litaðist mjög af stærri tjónum í skipatryggingum. Iðgjöld tímabilsins lækkuðu nokkuð en á móti kom töluverður samdráttur í tjónum. Framlegð vátrygginga var því jákvæð um 457 milljónir króna.

Hlutabréfafjárfestingar gefa vel

Ávöxtun fjárfestingaeigna á fjórðungnum var 2,5% og munar þar mestu um góða ávöxtun af skráðum hlutabréfum, sem hækkuðu um 13,9% á fjórðungnum, og einnig af eignatryggðum skuldabréfum, sem hækkuðu um 2,9%. Þá hækkuðu stærstu eignir félagsins verulega, um 11 til 16,7%. Fjárfestingatekjur námu 1,9 milljörðum króna fyrstu níu mánuði ársins, sem jafngildir 7,3% ávöxtun.

Hagnaður af fjármögnunarstarfsemi nam 143 milljónum króna. Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, segir í fréttatilkynningu með uppgjörinu afkomu Lykils fjármögnunar vera með miklum ágætum á fjórðungnum og að mikill gangur hafi verið í nýjum bílalánum undanfarna mánuði.

Staða leigusamninga og útlána hjá Lykli jókst um 12,6% á fyrstu níu mánuðum ársins. Faraldurinn hefur þó leitt til töluverðrar virðisrýrnunar á útlánum það sem af er ári, og eru varúðarniðurfærslur vegna faraldursins sagðar skýra megnið af 675 milljóna króna virðisrýrnun útlána.

Rekstrarspá TM gerir ráð fyrir að samsett hlutfall ársins 2020 verði um 94% og að hagnaður af rekstri verði um 1,9 milljarðar króna. Til næstu tólf mánaða er gert ráð fyrir 3 milljarða hagnaði fyrir skatta

Góður gangur í sameiningarviðræðum TM og Kviku banka

Undir lok síðasta mánaðar var tilkynnt um viðræður Kviku banka og TM um sameiningu. Sigurður segir í fréttatilkynningunni að viðræður hafi gengið vel og stefnt sé að því að niðurstaða liggi fyrir á næstu vikum. Gangi áform um sameiningu eftir verði sameinað félag fjárhagslega sterkt og með alla burði til að sækja fram á öllum helstu sviðum fjármála- og tryggingaþjónustu.

Forsendur viðræðnanna munu byggjast á því að TM verði dótturfélag Kviku og að Lykill fjármögnun, núverandi dótturfélag TM, sameinist Kviku. Þá er gert ráð fyrir því að hluthafar í TM eignist 55% hlut í sameinuðu félagi.

Að mati stjórna félaganna er raunhæft að ná fram eins milljarðs króna kostnaðarsamlegð með sameiningu, án viðskipta- og einskiptiskostnaðar.

Sjá einnig: Kvika og TM formfesta viðræður