Hagnaður TM á þriðja ársfjórðungi 2015 fyrir skatta var á bilinu 1,5 - 1,6 milljarðar króna, samkvæmt drögum að uppgjöri. Þennan hagnað má helst skýra af mun hærri fjármunatekjum tryggingafyrirtækisins en búist var við.

Í ljósi þessa óvænta hagnaðar áætla stjórnendur TM að árshagnaður fyrirtækisins fyrir skatta verði á bilinu 2,5 - 2,7 milljarðar króna, og skiptir þar hækkun fjármunatekna sköpum.

Í tilkynningu frá TM segir þó að sérstakir þættir á borð við þróun á verði fasteigna og tjónakostnaður komi til með að verða óvissuþættir á fjórða fjórðungi, en síðustu ár hefur hann verið tjónaþungur. Miklar sveiflur geti því komið fram í hagnaðartölum vátryggingafyrirtækja milli fjórðunga.

Gengi bréfa TM í kauphöll Nasdaq Iceland hefur hækkað í dag um 3,11% í 135 milljóna viðskiptum.

TM birtir árshlutauppgjör fyrir þriðja ársfjórðung 2015 eftir lokun markaða fimmtudaginn 29. október næst komandi.