*

laugardagur, 11. júlí 2020
Innlent 3. júní 2020 16:12

TM hástökkvari dagsins

Fjögur félög hækkuðu um rúmlega 2%. Krónan styrktist gagnvart öllum sínum helstu viðskiptamyntum.

Ritstjórn

Úrvalsvísitalan (OMXI10) lækkaði lítillega í viðskiptum dagsins, um 0,27%, og stendur nú í 2.051,16 punktum. Heildarvelta dagsins nam 2,2 milljörðum íslenskra króna, samanborið við 1,4 milljarða í gær, og fjöldi viðskipta nam 245, samanborið við 172 í gær.

Fjögur félög hækkuðu um rúmlega 2% í viðskiptum dagsins. Mest hækkun var á bréfum TM, eða um 2,78%, sem standa nú í 33,3 krónum hvert. Næst mest hækkun var á bréfum Eimskip, um 2,69%, og réttu bréfin því að hluta til úr kútnum eftir að hafa lækkað um 4,41% í viðskiptum gærdagsins. Auk TM og Eimskips hækkuðu bréf Arion banka og Símans um rúmlega 2% en mest viðskipti voru með bréf Arion, eða um 707 milljónir króna.

Marel leiddi lækkun dagsins eftir mikla hækkun undanfarið en bréf félagsins standa nú í 703 krónum hvert. Næst mest velta var með bréf Marels fyrir um 383 milljónir.

Íslenska krónan styrktist gagnvart öllum sínum helstu viðskiptamyntum. Mest styrktist hún gagnvart japanska jeninu, um 2,41%. Næst mest styrktist krónan gagnvart Bandaríkjadalnum, um 2,21%, en hann kostar nú tæplega 133 krónur. Breska pundið veiktist um 1,83% gagnvart krónunni og fæst nú á um það bil 167 krónur.

Stikkorð: Arion banki Eimskip Síminn TM Kauphöllin