Hlutabréf Tryggingamiðstöðvarinnar hafa hækkað mest allra hlutabréfa í Kauphöllinni frá áramótum eða um 55,6%. Þá hafa bréf P/F Altantic Petrolium hækkað um 36,9%, en þar að baki eru lítil viðskipti. Hlutabréf í Mosaic Fashions hafa hins vegar lækkað mest eða um 14,9% og bréf Landsbankans um 12,1%.

Þegar borið er saman gengi hlutabréfa frá áramótum kemur í ljóst að fjárfestar hafa í mörgum tilfellum náð ágætri ávöxtun frá áramótum, þrátt fyrir lækkanir sérstaklega í febrúar og mars. ICEX 15 vísitalan hefur nær staðið í stað á sama tíma.

Auk áðurnefndra tveggja félaga hafa hluthafar í HB Granda fengið góða ávöxtun en bréfin hafa hækkað um liðlega 33% frá byrjun árs og bréf í Actavis um nær 31%. Bréfa allra bankanna, utan Landsbankans, hafa hækkað. Mest hafa bréf Straum Burðaráss hækkað eða um 16,4%, þá Glitnis um 7,1% og Kaupþings banka um 4%.

Þrátt fyrir lækkun síðustu daga eru bréf FL Group 6,5% hærri en í byrjun árs.

Hlutabréf Flögu hafa, líkt og bréf Landsbankans og Mosaic, lækkað eða um 11,6%. Þessi bréf skera sig töluvert úr. En einnig hafa bréf í Atorku, Bakkavör og Alfesca lækkað um 3-4%. Bréf í Össur eru nær á sama verði og um áramótin.

Virkustu viðskiptin hafa verið með bréf bankanna fjögurra og eru viðskipti með þau mjög ráðandi á markaði. Þá er viðskipti einnig mikil með bréf í FL Group, Bakkavör og Actavis.