Tryggingamiðstöðinni hf. (TM) hefur, fyrst erlendra tryggingafélaga, verið veitt starfsleyfi í Færeyjum. Í frétt frá félagsinu kemur fram að TM mun fyrst um sinn einbeita sér að sjótryggingum, enda fiskveiðar stór hluti færeysks atvinnulífs og TM  reynslumikið félag á því sviði.

Er starfsemi því tengd þegar hafin í Færeyjum.  Síðar meir er ætlunin að bjóða allar almennar skaðatryggingar fyrir fyrirtæki og einstaklinga.  Á færeyskum tryggingamarkaði í dag eru tvö félög, P/F Tryggingarfelagid Føroyar og P/F Trygd.

"Það er mikill heiður fyrir Tryggingamiðstöðina að verða fyrst erlendra tryggingafélaga til að fá starfsleyfi í Færeyjum. Við lítum á Færeyjar sem hluta af okkar heimamarkaði, enda atvinnulífið og samfélagið allt líkt því sem gerist hér á landi. Sjávarútvegur er ráðandi atvinnuvegur í Færeyjum og þar sem TM hefur ávallt verið afar sterkt félag á því sviði teljum við að innkoma okkar á færeyska markaðinn muni verða öllum til hagsbóta," segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, í tilkynningu.