Samningaviðræðum Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) og Klakka ehf. um kaup þess fyrrnefnda á Lykli fjármögnun lauk í dag með undirritun kaupsamnings á öllu hlutafé í lykli.

Kaupverðið er 9.250 milljónir króna auk þess sem TM greiðir hagnað Lykils á árinu 2019 til seljanda.

Eigið fé Lykils var 11.688 milljónir króna um mitt ár 2019. Hlutfall kaupverðs á móti áætluðu eigin fé í árslok 2019 er 0,82 miðað við áætlanir um afkomu Lykils á árinu 2019, að því er kemur fram í tilkynningu um kaupin.

„Kaupverðið verður greitt með handbæru fé og verður fjármagnað með útgáfu á nýju hlutafé að fjárhæð allt að 3.000 m.kr. og sölu á eignum. TM hefur tryggt sér lánsfjármögnun að fjárhæð allt að 3.000 m.kr. vegna viðskiptanna til að viðhalda sveigjanleika í stýringu eignasafnsins.

Kaupin á Lykli eru í samræmi við stefnu TM og eftirleiðis mun starfsemi félagsins skiptast í þrjár jafn mikilvægar stoðir, vátryggingar, fjármögnun og fjárfestingar. Tækifæri eru til að bæta arðsemi af grunnrekstri Lykils. TM áætlar að hægt verði að ná fram töluverðum samlegðaráhrifum, bæði í tekjum og kostnaði, fjölga fjármögnunarkostum og ná niður fjármagnskostnaði. Þá er stefnt að því að gera fjármagnsskipan hagkvæmari.

TM telur kaupin vera hagfelld fyrir hluthafa, enda gera áætlanir ráð fyrir að hagnaður á hvern hlut muni aukast um 20-30% á komandi árum.

Þann 30. júní námu heildareignir Lykils 40.186 m.kr. og þar af voru leigusamningar og útlán 32.330 m.kr. Þá var reiknað eiginfjárhlutfall (CAD) Lykils 29,2%. Efnahagsreikningur TM mun tæplega tvöfaldast við viðskiptin. Gjaldþolshlutfall TM var 1,74 um mitt ár 2019 en markmið félagsins er að hlutfallið sé á bilinu 1,4-1,7. Sterk eiginfjárstaða hjá TM sem og hjá Lykli gerir það að verkum að gjaldþolshlutfall TM verður áfram mjög sterkt eftir viðskiptin eða rúmlega 1,5 að teknu tilliti til hlutafjáraukningar.

Boðað verður til hluthafafundar hjá TM þar sem nánar verður gert grein fyrir viðskiptunum og óskað eftir heimild hluthafafundar til útgáfu nýs hlutafjár. Á fundinum verður lögð fram tillaga um breytingu á tilgangi félagsins. TM er í dag vátryggingafélag, en verði tillagan samþykkt verður TM móðurfélag tveggja dótturfélaga, vátryggingafélags og fjármögnunarfélags,“ segir ennfremur í tilkynningunni.