Eva Helgadóttir, stjórnarformaður Tryggingamiðstöðvarinnar (TM), sagði á aðalfundi félagsins í dag að staða TM væri afar sterk. Hún sagði rekstur félagsins vera traustan og að vel hefði verið haldið á spilunum við stjórnun félagsins.

Hún vék einnig að möguleikum þess að TM yrði skráð á markað: "Í þessu samhengi er vert að geta þess að það er stefna Stoða, aðaleiganda TM, að hefja á næstu misserum undirbúning að skráningu TM í Kauphöllina, samhliða söluferli. Nákvæmar tímasetningar liggja ekki fyrir en telja má líklegt að skráning í Kauphöll geti orðið að veruleika seint á þessu ári eða snemma árs 2012. Ég tel að þetta verði rökrétt og jákvætt skref fyrir TM, og ég er líka sannfærð um að TM mun teljast mjög áhugaverður fjárfestingakostur fyrir smærri sem stærri fjárfesta," sagði Eva.

Eins og greint hefur verið frá í Viðskiptablaðinu gekk rekstur TM vel í fyrra. Hagnaður af reglulegri starfsemi í fyrra var 765 milljónir króna. Eigið fé var rúmlega 8,8 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 30%, sem er langt yfir gjaldþolsmörkum FME.