Brunatjón varð í fiskimjölsverksmiðju Samherja hf. í Grindavík í gær. Miklar skemmdir urðu á húsum og lausafé en of snemmt er segja til um fjárhæð tjónsins.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að eignirnar séu tryggðar hjá Tryggingamiðstöðinni.

Talið er að áhrif tjónsins á afkomu TM á árinu 2005 verði um 200 mkr. en það er hlutur TM í tjóninu að viðbættum viðbótariðgjöldum sem TM þarf að greiða til endurtryggjenda þegar um svo stórt tjón er að ræða.

Eldur braust út í fiskimjölsverksmiðju Samherja hf. í Grindavík gær, ekki var um það að ræða að starfsmenn væru í hættu. Allmiklar skemmdir urðu á húsakosti bræðslunnar en ljóst er að hluti tækjabúnaðar er óskemmdur.

Í tilkynningu frá Samherja segir að ljóst sé á þessari stundu að verksmiðjan verður ekki starfrækt í bráð en framundan er einn annasamasti tíminn í fiskimjöls, lýsis og hrognaframleiðslu. Fyrirtækið er tryggt fyrir tjóninu bæði með fasteigna- og rekstrarstöðvunartryggingu.

Afleiðingar brunans koma hins vegar til með að hafa neikvæð áhrif á allar uppsjávarveiðar og hrognavinnslu félagsins og þar með á afkomu félagsins fyrstu þrjá mánuði ársins. Hversu mikil áhrif, er ekki hægt að segja á þessari stundu en unnið er að því að minnka áhrifin með því að tryggja starfsemi hrognavinnslu félagsins í Grindavík.