Eimskip, dótturfélag Avion Group, hefur tekið að sér sölu farmtrygginga fyrir Tryggingamiðstöðina hf. (TM). Er samningurinn í samræmi við markmið TM og Eimskips um að efla stöðugt þjónustuna við viðskiptavini sína segir í tilkynningu félaganna.

Samningurinn milli Eimskips og TM um farmtryggingar felur í sér aukna þjónustu við viðskiptavini Eimskips, einfaldari iðgjaldaskrá og í mörgum tilfellum hagstæðari iðgjöld en áður hefur þekkst á almennum markaði hérlendis. Jafnframt tekur Eimskip að sér afgreiðslu og uppgjör tjónamála að ákveðnu marki fyrir hönd TM, til hagræðingar og þæginda. Þar af leiðandi leiðir þessi nýbreytni til mikillar einföldunar fyrir þá sem flytja vörur með Eimskip og eykur fjárhagslegt öryggi vörueigenda segir í tilkynningu félaganna.

TM og Eimskip munu leggja mikla áherslu á þennan þjónustuauka í starfsemi sinni á næstunni. Bæði félögin telja að hann leiði til aukningar í sölu farmtrygginga og verður lögð áhersla á að farmtryggingar verði sjálfsagður þáttur í flutningsferlinu

Að auki er verið að vinna að frágangi nýrra farmtryggingasölusamninga á milli TM, TVG-Zimsen og Flytjanda, nýjungar sem kynntar verða síðar.