Vátryggingafélagið TM hækkaði mest allra félaga Kauphallarinnar í dag eða um 4% í 71 milljón króna veltu. Gengi TM hefur hækkað um 18%% frá áramótum og um 168% á ársgrundvelli. Kvika banki hækkaði næst mest í dag eða um 1,5% í 306 milljóna króna viðskiptum.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,3% í 2,4 milljarða króna veltu dag. Icelandari lækkaði mest allra félaga eða um 1,4%. Einnig lækkaði Marel um 0,9% í 331 milljón króna veltu og Arion banki um 0,4% í 333 milljóna króna viðskiptum.

Mesta veltan var með bréf Símans sem hækkuðu um 0,6% í 475 milljóna króna viðskiptum. Tvö félög voru flögguð vegna eignarhlutar í Símanum. Annars vegar var það Stoðir, stærsti hluthafi Símans, sem á nú 15,4% hlut í fjarskiptafélaginu og Brú lífeyrissjóður sem á rúmlega 5,2% hlut.

Ástæða flöggunar var þó ekki vegna viðskipta þeirra heldur lækkun hlutafjár félagsins í dag um rúmlega 315 milljónir króna að nafnvirði sem tekur til eigin hluta sem félagið hafði eignast með endurkaupaáætlun. Hlutaféð verður svo lækkað um ríflega 894 milljónir króna að nafnverði til viðbótar með greiðslu til hluthafa þann 30. mars næstkomandi.