Á undanförnum vikum hafa æðstu stjórnendur Kviku banka og TM átt í viðræðum um mögulega sameiningu félaganna, en Fréttablaðið greindi frá þessu í morgun. Rætt hefur verið um helstu skilmála slíkra viðskipta, nú síðast um liðna helgi, en ekki hefur náðst samkomulag um undirritun viljayfirlýsingar um að hefja formlegar sameiningarviðræður.

Viðræðurnar eru sagðar eiga sér nokkurn aðdraganda en eru nú tímabundið á ís að sögn þeirra sem þekkja vel til stöðu mál. Á meðal þess sem þær hafa strandað á eru ólíkar hugmyndir um á hvaða verði félögin yrðu metin við sameiningu.

Í viðræðunum hefur verið lagt upp með, verði af sameiningu félaganna, að viðskiptin færu fram með skiptum á hlutabréfum, frekar en greiðslu reiðufjár, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Markaðsvirði Kviku banka er um 19 milljarðar króna en markaðsvirði TM um 26 milljarða.

Samkvæmt aðilum sem þekkja vel til viðræðna félaganna er ljóst að stjórnendur TM horfa einkum til þeirrar samlegðar sem myndi fást með því að renna Lykli saman við bankastarfsemi Kviku. Yfirlýst áform TM hingað til hafa verið að sækjast eftir viðskiptabankaleyfi fyrir Lykil þannig að félagið geti farið að bjóða upp á innlán. Einnig eru talið að hægt yrði að ná fram lækkun fjármagnskostnaðar með betri vaxtakjörum og sömuleiðis væri ljóst að sparnaður fengist í rekstrarkostnaði.

TM og Kvika sendu frá sér tilkynningar til Kauphallarinnar í morgun þar sem félögin hafna því að viðræður um mögulegan samruna eigi sér stað og segja að slíkar viðræður séu ekki fyrirhugaðar.