*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Innlent 21. júlí 2019 20:04

TM reynir við Lykil á ný

TM hefur gert Klakka kauptilboð í Lykil. Félögin náðu ekki saman um kaupin síðasta sumar.

Ritstjórn
Sigurður Viðarsson er forstjóri TM.
Haraldur Guðjónsson

TM hefur gert Klakka kauptilboð í fjármálafyrirtækið Lykil að því er segir í tilkynningu frá TM. Tilboðið miðast við að 9,25 milljarðar króna verði greiddir fyrir Lykil í reiðufé auk hagnaðar Lykils á þessu ári eftir skatta. TM átti í viðræðum um kaup á Lykli í fyrra en félögin náðu ekki saman og fallið var frá viðræðunum í júní 2018.

Kaupin nú eru háð ýmsum fyrirvörum, svo sem áreiðanleikakönnun og niðurstöðu hennar, samþykki hluthafafundar TM svo og samþykki Fjármálaeftirlitsins um að TM megi fara með virkan eignarhlut í Lykli fjármögnun og að Samkeppniseftirlitið samþykki hið nýja eignarhald. Klakki og TM gefa sér 8 vikur til að ljúka viðræðunum.

Lykill fjármögnun er fjármálafyrirtæki sem býður upp á margþættar fjármögnunarleiðir við kaup og rekstur fasteigna og lausafjármuna fyrir einstaklinga, fyrirtæki og aðra rekstraraðila. Hagnaður Lykils árið 2018 nam 1,2 milljörðum króna og 2,1 milljarði króna árið 2017.