TM tryggingar, dótturfélag Kviku banka, hefur selt allan 11,6% eignarhlut sinn í fjárfestingarfélaginu Stoðum. Eignarhluturinn í Stoðum var stærsta fjárfestingaeign TM en í lok fyrsta ársfjórðungs nam virði hlutarins rúmum 4,3 milljörðum króna eða sem nemur 14% af fjárfestingaeignum. Þetta kemur fram í tilkynningu Kviku til Kauphallarinnar.

Söluvirðið er allt greitt með handbæru fé og mun salan hafa rúmlega 200 milljóna króna jákvæð áhrif á afkomu TM á öðrum ársfjórðungi. Hluturinn var seldur til hóps fjárfesta í gegnum söluferli sem Íslenskir fjárfestar hf. sáu um fyrir hönd TM.

Eignarhaldsfélagið S121 er stærsti hluthafi Stoða með 55,3% hlut, samkvæmt ársreikningi Stoða fyrir árið 2020, en TM fylgdi þar á eftir með 12,4% beinan hlut í félaginu. Í lok síðasta árs seldi Landsbankinn 12,1% eignarhlut sinn í Stoðum fyrir 3,3 milljarða króna.

Stoðir, sem er stærsti hluthafi Kviku banka með 9% eignarhlut, hagnaðist um 7,6 milljarða króna á síðasta ári og eigið fé fjárfestingafélagsins nam 31,7 milljörðum króna í árslok 2020.