„Við skrifuðum undir viljayfirlýsingu um söluna með öllum þeim fyrirvörum sem áreiðanleikakönnun felur í sér,“ segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, um sölu Tryggingamiðstöðvarinnar á norska dótturfélaginu Nemi Forsikring ASA.

Kaupandinn er W.R. Berkley sem er eitt af stærstu tryggingarfélögum á fyrirtækjamarkaði í Bandaríkjunum.

„Við gerum fastlega ráð fyrir því að þetta gangi í gegn og að við klárum þetta sem fyrst,“ segir Sigurður sem gat ekki upplýst blaðamann um verðið sem fæst fyrir félagið. „Kaupverðið er algjört trúnaðarmál á þessu stigi. En þegar skrifað er undir svona viljayfirlýsingu er það byggt á verðhugmyndum og við hefðum að sjálfsögðu ekki skrifað undir án þess að vera sátt við þær hugmyndir,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið en þar er greint frá sölunni í dag.