Atvinnurekstrardeild Tryggingamiðstöðvarinnar hefur gert samning við Heilsuverndarstöðina ehf. um heilsufarsskoðun á sjómönnum fyrir þau útgerðarfélög sem TM vátryggir, segir í tilkynningu.

Er þetta í fyrsta sinn sem slíkur samningur er gerður á Íslandi og styrkir hann enn frekar sérstöðu TM í tryggingum fyrir sjávarútveginn.

Í skoðuninni felast bæði árlegar heilsufarsskoðanir áhafnarmeðlima og skoðanir á nýráðnum starfsmönnum. Markmið samningsins er meðal annars að stuðla að bættri heilsu, draga úr fjarvistum vegna slysa og veikinda og auka öryggi sjómanna.

Þar með er hægt að fækka slysum og veikindum áhafnarmeðlima og jafnframt draga úr útgjöldum útgerðarfyrirtækja og TM vegna þeirra.

Heilsufarsskoðunin er athugun á líkams- og heilsufarsástandi ásamt fræðslu um hvernig efla megi heilsuna. Hver og einn er skoðaður út frá áhættuþáttum sem tengjast aldri, sögu og starfi.

Skoðunin er löguð að þörfum sjómanna og lögð er áhersla á ráðgjöf um lífshætti og lífsstíl auk þess sem farið er yfir hreyfingu, svefn og næringu.

Heilsuverndarstöðin ehf. er dótturfélag InPro ehf. sem er þjónustufyrirtæki á sviði öryggis-, heilbrigðis-, umhverfis- og rekstraröryggismála.