TM Software, dótturfélag Nýherja, efndi til ráðstefnu um ýmsar sparnaðarleiðir í rekstri tölvukerfa fyrir skömmu. Ráðstefnan bar heitið Hagræðing í upplýsingatækni en hjá TM Software starfa um 230 starfsmenn sem hafa áralanga reynslu við að hagræða í rekstri tölvukerfa og eru sífellt að leita leiða til að nota upplýsingatækni til að lækka rekstrarkostnað fyrirtækja, segir í frétt frá félaginu.

Kynntar voru þær vörur og þjónusta sem TM Software býður upp á sem leitt geta til umtalsverðrar hagræðingar við rekstur og þjónustu í upplýsingatækni fyrirtækja og stofnana og sú aðferðafræði sem TM Software hefur tileinkað sér við að ná slíkum markmiðum fyrir sína viðskiptavini.

Þrír viðskiptavinir TM Software; Óskar J. Sandholt, framkvæmdastjóri fræðslu- og menningarsviðs Seltjarnarnesbæjar, Kristján Þór Hallbjörnsson, forstöðumaður upplýsingatæknisviðs Eimskips og Hjörtur Þorgilsson, upplýsingatæknistjóri Icelandair, deildu reynslusögum af viðskiptum sínum við TM Software og í lokin voru pallborðsumræður þar sem þeir og aðrir fyrirlesarar á ráðstefnunni svöruðu spurningum ráðstefnugesta.