Í tilkynningu frá Nýherja segir að frétt Viðskiptablaðsins í morgun um TM Software ehf. hafi bæði verið mjög villandi og upplýsingar rangar.

Það rétta í málinu, að mati forsvarsmanna félaganna, er eftirfarandi: „Roka ehf, dótturfyrirtæki Nýherja, hefur verið úrskurðað gjaldþrota en TM Software ehf. er í fullum rekstri.  TM Software hefur skilað hagnaði á árinu og er afkoman betri en áætlanir gerðu ráð fyrir."

Aths. ritstj.:

Í frétt Viðskiptablaðsins kemur fram að Roka ehf, sem áður hét TM Software ehf, var úrskurðað gjaldþrota í héraðsdómi í febrúar síðastliðnum að kröfu Straums-Burðaráss. Um það er ekki deilt. Samkvæmt fyrirtækjaskrá barst tilkynning 22. febrúar síðastliðinn að nafni TM Software ehf. hefði verið breytt í Roka ehf.

Það er því ekki rangt að segja að TM Software hafi verið úrskurðað gjaldþrota. Hins vegar er rétt að taka fram að nú er starfandi annað félag, TM Software Origo ehf., sem þekkt er undir nafninu TM Software. Það flutti heimilisfang sitt frá Urðarhvarfi í Kópavogi í Borgartún 37, þar sem Nýherji hefur aðsetur, 23. júní síðastliðinn.