TM Software, félag í eigu Nýherja [ NYHR ], hefur skrifað undir samstarfssamning við bandaríska fyrirtækið MuleSource, leiðandi dreifingaraðila á opnum samþættingar hugbúnaði (e.open source). TM Software getur nú boðið viðskiptavinum sínum ódýra samþættingarlausn sem eykur verðmæti fjárfestinga þeirra í upplýsingatækni, segir í fréttatilkynningu.

MuleSource er leiðandi í dreifingu á opnum hugbúnaði með þjónustumiðaða högun, þekkt á ensku sem Service Oriented Architecture (SOA). Þjónustumiðuð högun miðar að því að hugbúnaðarkerfi veiti aðgang að sínum gögnum og aðgerðum á samræmdan hátt þannig að önnur hugbúnaðarkerfi geti með lágmarks fyrirhöfn og kostnaði nýtt sér þau. Mule er ódýr í rekstri gerir fyrirtækjum kleift að hagræða í upplýsingatækni sinni þar sem m.a. hugbúnaðarleyfið er ódýrt og auðvelt er að setja kerfið upp og því fylgir lítil áhætta.

„Við erum einstaklega ánægð með samstarfið við MuleSource og geta kynnt viðskiptavinum okkar á Íslandi fyrir þessari öflugu samþættingarlausn,“ sagði Stefán Þór Stefánsson, framkvæmdastjóri hugbúnaðarlausnasviðs TM Software. „Í dag krefjast fyrirtæki lausna með þjónustumiðaða högun sem skapa tafarlaus verðmæti án þess að þau þurfi að greiða dýr leyfisgjöld fyrir notkun samþættingarhugbúnaðar. Mule gerir okkur kleift að uppfylla þarfir viðskiptavina okkar og að sjá verðmæti fyrr í samþættingarferlinu án þess að þurfa að fara út í dýrar fjárfestingar í upphafi verkefna“.

„Mule er sífellt að verða vinsælli lausn víðsvegar um heim. Enn fleiri hugbúnaðarfyrirtæki leita nú að opnum samþættingarlausnum sem auka verðmæti viðskiptavina á sama tíma og þau lækka heildarkostnað þeirra í leyfisgjöldum án þess þó að krefjast vörumerkistryggðar,” sagði Mike Lewis, aðstoðarframkvæmdastjóri viðskiptaþróunarsviðs MuleSource. „Við erum einstaklega ánægð með að TM Software hefur bæst í hóp samstarfsaðila okkar. TM Software laðar að sér einstaklega hæft starfsfólk auk þess sem það býr yfir þeim nýsköpunarkrafti sem einkennir Ísland“.

Samstarfssamningur við MuleSource veitir fyrirtækjum sérþekkingu á að markaðssetja, þróa, hanna og samþætta lausnir fyrir viðskiptavini um heim allan. MuleSource var stofnað árið 2006 og státar nú af 28 þjónustu, þjálfunar, og tæknilegum samstarfsaðilum um heim allan.