Þegar fellibylurinn Nargis skall á Myanmar í byrjun maí leitaði Microsoft Corporation eftir því að TM Software, ásamt nokkrum öðrum samstarfsaðilum Microsoft, styrkti hjálparstarfið á hamfarasvæðunum með því að útbúa lausn byggða á SharePoint fyrir Sameinuðu þjóðirnar, segir í fréttatilkynningu.

Lausnin snýst um að halda utan um öll gögn og miðlun upplýsinga á hamfarasvæðinu þar sem tugir hjálparstofnana koma að hjálparstarfinu og er nauðsynlegt að allar upplýsingar séu til staðar fyrir þær.

Lausn fyrir alla sjálfboðaliða

Eftir að fellibylurinn dundi yfir Myanmar komu margar stofnanir að hjálparstarfinu t.a.m. með læknisaðstoð, mataraðstoð, vatnsaðstoð, tjaldaaðstoð og barnaaðstoð.

Til að samskipti milli þessara stofnana geti farið skilvirkilega fram og allar upplýsingar séu til staðar fyrir alla sjálfboðaliða og starfsmenn stofnana bauð Microsoft fram aðstoð sína með því að setja upp SharePoint samskiptavef.

Vegna SharePoint sérþekkingar starfsmanna TM Software leitaði Microsoft Corporation til félagsins og voru sérfræðingar TM Software í SharePoint fengnir inn í stóran hóp Microsoft samstarfsaðila og starfsmanna Microsoft um heim allan, segir í fréttatilkynningunni.

„Lausnin var smíðuð frá grunni og vorum við í kringum 30-35 manns sem tókum þátt í því. Það tók tæpa viku að smíða lausnina og setja hana upp en það gekk svona hratt því einungis var fengið toppfólk í verkefnið,“ sagði Magnús Ingi Stefánsson, verkefnastjóri hjá TM Software í fréttatilkynningunni. Hann hefur ásamt Þórmundi Helgasyni unnið í þessu verkefni fyrir hönd TM Software ásamt öðrum.

Áætlað er að vefsvæðið verði í notkun í sex til sjö mánuði í viðbót en TM Software sér um allt viðhald og áframhaldandi þróun á því.

TM Software er í eigu Nýherja.