Seltjarnarneskaupstaður og TM Software, sem er í eigu Nýherja [ NYHR ], hafa undirritað samstarfssamning um altækan rekstur tölvukerfa bæjarins, fjármögnunarþjónustu og notendaþjónustu. Í samningnum felst allur daglegur rekstur tölvukerfa og -búnaðar sem og notendaþjónusta með viðveru tæknimanna og aðgangi starfsmanna bæjarins að Þjónustumiðstöð TM Software sem opin er allan sólarhringinn allt árið um kring. Samningurinn er gerður í framhaldi af útboði sem Seltjarnarneskaupstaður stóð fyrir fyrr á árinu, segir í fréttatilkynningu.

Um er að ræða umfangsmikinn rekstur allra tölvukerfa bæjarins en miklar breytingar hafa átt sér stað á því á undanförnum árum. TM Software hefur alfarið séð um rekstur tölvukerfa Seltjarnarneskaupstaðar og stýrt og séð um framkvæmd á viðamiklum úrbótaverkefnum sem bærinn hefur farið í til að endurnýja og bæta tölvuumhverfi sitt eins og endurnýjun netþjóna og netkerfis og endurhögun tölvukerfa svo eitthvað sé nefnt.

Samningur um fjármögnunarþjónustu sem undirritaður var á sama tíma, er rammasamningur um innkaupaþjónustu og fjármögnun notendabúnaðar milli Seltjarnarnesbæjar og TM Software. Markmið samningsins er að samræma innkaup á notendabúnaði, tryggja jafnt greiðsluflæði sem og nýta sér almenna innkaupaþjónustu TM Software. Með því er tryggt að samræmd innkaup fara fram á tilgreindum tímapunktum sem og að reglulega er staðið að endurnýjun búnaðar hjá Seltjarnarnesbæ.