Nýherjafélagið TM Software hefur tekið þátt í þróun samskiptagáttar fyrir félag sjúkraþjálfara  í Danmörku, en lausnin nær til um 30 þúsund félagsmanna þar í landi. Um er að ræða innri vef sem er nokkurs konar samfélagsvefur sem hefur að geyma upplýsingar um félagsmenn, starfsemina, fróðleik og viðburði sem eru framundan hjá félaginu segir í tilkynningu.

Þar geta félagsmenn skráð sig á ýmis námskeið og faghópa sem tengjast starfseminni. Samskiptagáttin er unnin í IBM WebSphere Portal samþættingarlausnum.

Verkefnið var unnið á vegum IBM og danska hugbúnaðarfélagsins INOPI, sem fékk TM Software til þess að útfæra lausnina og annast uppsetningu á einstökum einingum. Verkefnið hófst í febrúar á þessu ári en lauk nú fyrir skömmu. „Ástæða þess að TM Software varð fyrir valinu er vegna þekkingar félagsins á þróun vef- og samskiptalausna og samþættingu upplýsingakerfa. Þá  hefur TM Software mikla reynslu og þekkingu í IBM WebSphere Portal samþættingarlausnum,“ segir Ágúst Einarsson framkvæmdastjóri TM Software í tilkynningu.