TM Software hefur selt rekstur dótturfélags síns, Libra ehf., til sænska fyrirtækisins OMX Technology, segir í tilkynningu frá TM Software.

OMX AB, sem rekur kauphallirnar í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, Helsinki, Tallinn, Riga og Vilnius, er móðurfélag OMX Technology.

Í tilkynningunni frá TM Software segir að samningurinn um söluna taki gildi þann 1. janúar að því tilskildu að ákveðin skilyrði verði uppfyllt fyrir árslok.

?Í samkomulagi félaganna felst að öll starfsemi Libra muni framvegis heyra undir OMX Technology sem bjóða mun samnorrænar lausnir fyrir bakvinnslu fjármálafyrirtækja. Libra er í viðskiptum við yfir 20 fjármálafyrirtæki og stofnanir á Íslandi. Fyrirtækið býður breitt úrval hugbúnaðarlausna fyrir verðbréfaviðskipti, lífeyrissjóði og lánaumsýslu en þessar lausnir hafa allar verið þróaðar hér á landi," segir í tilkynningunni.

Kaupþing banki hefur gert samning við OMX Technology um að þróa einstaka hluta af vinnsluhugbúnaði bankans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá OMX Technology. Virði samningsins var ekki gefið upp.

Friðrik Sigurðsson, forstjóri TM Software, segir félagið stolt af að hafa þróað Libra-hugbúnaðarkerfin með þeim hætti að þau séu samkeppnisfær á alþjóðlegum markaði.

?Það var erfið ákvörðun að selja rekstur og eignir Libra og segja skilið við frábært starfsfólk en ákvörðunin var tekin vegna þess einstaka tækifæris sem Libra fær til vaxtar á alþjóðlegum markaði undir stjórn virts fyrirtækis sem er þegar með afar sterka stöðu á fjármálamörkuðum á Norðurlöndum og víðar," segir Friðrik.

Klas Stål, forstjóri OMX Technology, segir að íslenski markaðurinn mundi leika mikilvægt hlutverk í sókn félagsins á markaði fyrir banka og verðbréfafyrirtæki.

?Kaupin á Libra færa OMX Technology nær því takmarki að gera verðbréfaviðskipti skilvirkari. Þau skapa auk þess grundvöll til að styðja við vöxt íslenskra fyrirtækja í fjármálaþjónustu," segir Stål