TM Software hefur gengið frá samningi um sölu á öllum hlutabréfum í Maritech International til AKVA Group ASA í Noregi, segir í fréttatilkynningu.

Samningur þessi er gerður í framhaldi af viljayfirlýsingu sem gerð var milli félaganna í desember síðastliðnum um kaup AKVA á sjávarútvegshluta Maritech. Í framhaldi af áreiðanleikakönnun jókst umfang samningsins sem nær nú yfir alla starfsemi Maritech hér heima og erlendis. Stjórnendur TM Software töldu hagsmunum viðskiptavina best borgið ef Maritech yrði selt í heilu lagi, segir í tilkynningunni.

Ágúst Einarsson, forstjóri TM Software, segir ástæðu sölunnar þá að gott tilboð hafi borist frá félagi sem hafi mikla samlegð með rekstri Maritech. ?Við erum stolt af þeirri stöðu sem WiseFish-hugbúnaðurinn hefur náð á alþjóðlegum sjávarútvegsmarkaði og uppbyggingu Maritech síðustu ára og teljum samruna Maritech og AKVA styrkja bæði félög verulega. TM Software hefur mörg tækifæri til vaxtar á sterkum kjörsviðum félagsins og salan gerir TM Software betur í stakk búið að mæta þeim tækifærum sem eru á markaðnum.?

TM Software er leiðandi upplýsingatæknifélag á íslenskum markaði. Félagið hefur sótt mjög fram í sölu hugbúnaðarlausna fyrir heilbrigðisgeirann á alþjóðlegum vettvangi og er með starfsemi í Hollandi, Þýskalandi, Danmörku og Noregi sem tengist hugbúnaðarlausninni Theriak. Eftir söluna á Maritech starfa ríflega 260 starfsmenn hjá TM Software.

Fyrirtækjaráðgjöf Glitnis var ráðgjafi um kaupin sem eru háð samþykki stjórna beggja félaga.