TM Software og AKVA Group ASA hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um kaup þess síðarnefnda á öllum hlutabréfum í Maritech International AS, dótturfyrirtæki TM Software, segir í tilkynningu.

Þar með talin eru öll hlutabréf í Maritech sem er með starfsstöðvar í Noregi, Chile, Bretlandi og Bandaríkjunum auk eigna tengdum sjávarútvegi sem heyra undir Maritech hf. á Íslandi og Maritech Software Inc. í Kanada.

Samningurinn gerir ráð fyrir að TM Software afhendi AKVA Group öll kerfi sem fyrirtækið hefur þróað og tengist sjávarútvegi. Gert er ráð fyrir að sölunni verði að fullu lokið í febrúar 2007 eftir að áreiðanleikakönnun og frágangur endanlegs samnings hefur farið fram og öll skilyrði samningsins eru uppfyllt. Fyrirtækjaráðgjöf Glitnis var ráðgjafi seljanda.

Heildarsöluverð Maritech-fyrirtækjasamstæðunnar er 80 milljónir norskra króna eða sem samsvarar um 903 milljónum íslenskra króna en innifalin er yfirtaka á skuldum félagsins. Kaupverðið verður greitt með peningum við fullnustu samningsins. Áætluð velta Maritech og tengdra fyrirtækja 2006, sem AKVA kaupir samkvæmt samningnum, er um 130 milljónir norskra króna eða sem samsvarar um 1,5 milljörðum króna.

Að sögn Ágústs Einarssonar, forstjóra TM Software, er ástæða sölunnar sú að gott tilboð barst frá leiðandi félagi á heimsvísu í gerð hugbúnaðar fyrir sjávarútvegsfyrirtæki.

"Salan gerir TM Software kleift að leggja meiri kraft í þróun og útrás fyrirtækisins í lausnum fyrir heilbrigðisgeirann þar sem möguleikar á áframhaldandi vexti TM Software eru miklir. Við höfum þegar náð góðri stöðu á þeim vettvangi með öflugar vörur og mikla þekkingu. Það er ekki auðvelt að horfa á eftir starfsemi sem við höfum byggt upp á síðustu árum en hún verður hins vegar í góðum höndum hjá AKVA Group,? segir Ágúst.

Ágúst segir að sala fyrirtækisins muni ekki leiða til fækkunar starfa hjá Maritech þótt einhverjar tilfærslur verði væntanlega á starfsmönnum. Þrátt fyrir breytt eignarhald munu viðskiptavinir Maritech eftir sem áður fá alla umsamda þjónustu.

Helstu vörumerki Maritech eru WiseFish og WiseFarming, hugbúnaðarlausnir fyrir sjávarútveg með megináherslu á eldi og veiðar, virðisaukandi vinnslu, sölu og dreifingu. Mörg stærstu sjávarútvegsfyrirtæki í heimi nota eina eða fleiri lausnir Maritech. Maritech er umboðsaðili fyrir lausnir Marel fyrir sjávarútveg í Noregi.

Með kaupunum á Maritech mun AKVA Group verða leiðandi á heimsvísu í sölu upplýsingatæknilausna fyrir sjávarútveginn en fyrirtækið sameinar tvær stærstu hugbúnaðarlausnir í sjávarútvegi; FishTalk, sem er lausn AKVA Group fyrir útvegsfyrirtæki, og Wisefish, sem Maritech hefur þróað fyrir stjórnun fiskafurða ?frá báti að diski.?