TM Software hefur ákveðið að styrkja Ljósið, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra. Stuðningurinn felst í að veita Ljósinu afnot af sjúkraskrárkerfinu Sögu, sem Ljósið fær aðgang að í gegnum iCura-kerfisveitu, segir í tilkynningu.

Þetta felur í sér að umsjónarmenn Ljóssins geta nú skráð námskeið, fræðslutíma og sjúkrasögu allra sem sækja miðstöðina í sjúkraskrárkerfið Sögu. Með iCura-kerfisveitu fær Ljósið aðgang að Sögu yfir Netið og þarf því ekki að setja upp aukavélbúnað til að keyra Sögu. iCura-kerfisveitan fylgir ströngustu öryggiskröfum og tryggir það öruggan rekstur, afritunartöku, eftirlit og viðhald.

?Þetta hefur mikið hagræði í för með sér og er ómetanlegt fyrir okkur hjá Ljósinu. Nú getum við eflt starfsemi okkar enn frekar og stutt betur við bakið á hverjum og einum,? sagði Erna Magnúsdóttir, yfirumsjónarmaður starfsemi Ljóssins, við undirskrift samningsins. Hún taldi það einnig ómældan kost að geta fengið kerfi eins og Sögu í gegnum kerfisveitu og þannig nýtt áfram þann tölvukost sem fyrir var í miðstöðinni. Einnig gerir kerfisveita notendum kleift að tengjast sjúkraskránni utan starfsstöðvar Ljóssins og tryggir því sveigjanleika í skráningu og eftirliti.

?Þegar aðstandendur Ljóssins höfðu samband og lýstu áhuga á því að notfæra sér Sögu í sínum daglega rekstri, fannst mér sjálfsagt að við kæmum á einhvern hátt til móts við þarfir þeirra. Við ákváðum því að bjóða sjúkraskrárkerfið Sögu í iCura-kerfisveitu og láta gott af okkur leiða með því að styrkja Ljósið. Þannig þurfa Erna og hennar starfsfólk ekki að hafa áhyggjur af kostnaði hvað varðar tölvuvædda sjúkraskrá og rekstur hennar,? segir Davíð Arnar Þórsson, þjónustustjóri hjá TM Software.