Fyrirtækið TM Software, áður TölvuMyndir, hefur í engu breytt áformum sínum um skráningu fyrirtækisins í íslensku Kauphöllina á þessu ári. Að sögn Friðriks Sigurðssonar, forstjóra TM Software, hefur ekki verið samið við verðbréfafyrirtæki um skráningarferlið og hann sagðist ekki treysta sér til að segja til um hvenær það yrði, skráning yrði þó á árinu. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu sem kemur út í dag.

TM Software var stofnað árið 1986. Velta félagsins var um 3.500 milljónir árið 2004 og sagði Friðrik að stefnt væri að 4.000 milljóna kr. veltu á árinu en þá án ytri vaxtar sem hann taldi nokkrar líkur á. Starfsmenn eru um 400. Félagið hefur vaxið mjög á undanförnum árum og er eitt af stærstu fyrirtækjum í upplýsingatækni hérlendis. TM Software leggur áherslu á þróun, sölu og þjónustu á eigin hugbúnaði og heildarþjónustu til viðskiptavina í samstarfi við helstu upplýsingatæknifyrirtæki heims, svo sem Microsoft, IBM, Oracle, CA og Swisslog. Þá hefur TM Software í fjórgang hlotið viðurkenningu sem eitt af 500 framsæknustu fyrirtækjum í Evrópu og hlotið viðurkenninguna "Microsoft Gold Certified" frá Microsoft. Nýtt félag hefur ekki verið skráð í Kauphöllina síðan Medicare Flaga var skráð í lok árs 2003.