TM Software hefur þróað viðbót fyrir Jira verkbeiðna- og þjónustukerfið sem nefnd er Tempo. Jira kerfið kemur hins vegar frá alþjóðlegu fyrirtæki sem nefnist Atlassian. Að sögn Péturs Ágústssonar hjá TM Software virðist þessi lausn vera að slá í gegn í sölu á netinu. Um sé að ræða stóran markað sem hleypur á tugþúsundum notenda.

Lausn TM Software gerir notendum mögulegt að tengja tímaskráningu við Jira kerfið sem síðan getur tengst beint inn á launabókhaldskerfi. Þar af leiðandi þarf ekki að tvískrá beiðnir og reikninga sem einfaldar til muna allt skráningarferli hjá fyrirtækjum.

„Við byrjuðum að markaðssetja þetta fyrir þrem mánuðum síðan og höfum verið að fá mjög ákveðin viðbrögð. Við vorum með þetta á sýningu Atlassian í San Francisco í maí og fengum þar glimrandi viðtökur. Í raun hafa viðtökurnar framar björtustu vonum." Pétur segir Atlassian vera mjög ánægt með þessa viðbót við sitt kerfið og spáir því sérlega góðri framtíð.

„Það eru að jafnaði um fimm til tíu fyrirtæki að prófa þetta á dag og við erum þegar búnir að selja talsvert af þessari lausn til Bandaríkjanna, Kanada, Evrópulanda og m.a. Tyrklands. Þá hafa fjölmörg stórfyrirtæki prófað þessa lausn TM Software, svo sem Apple, Sony í Evrópu og American Online. Einnig eru margir hér á landi sem nota það nú þegar. Það er líka óvenjulegt við þessa framleiðslu að við erum í mjög kvikri þróun með þetta og eru í stöðugum samskiptum við þá sem eru að prófa vöruna og gefa okkur athugasemdir. Því getum við gefið út nýjar útgáfur á þriggja vikna fresti."

Pétur segir að þessi viðbót hafi upphaflega verið þróuð til til þess að leysa innanhússvandamál hjá TM Software og hefur verið þar í notkun í tvö til þrjú ár. Síðan var ákveðið að gera þetta að markaðsvöru. Nánar má lesa um þessa viðbót hér .