TM hefur tekið í notkun nýja stafræna lausn sem gerir fólki kleift að ganga frá sínum tryggingum sjálfvirkt á nokkrum mínútum. Samkvæmt fréttatilkynningu frá félaginu er um að ræða nýjung á tryggingamarkaði hér á landi og hefur hin nýja stafræna lausn fengið nafnið, Vádís.

Neytendur geta fengið tilboð í helstu tryggingar heimilisins hjá TM og gengið frá viðskiptum við félagið á nokkrum mínútum á netinu og í snjallsímum. Markmiðið með þjónustunni er að efla aðgengi að þjónustu og auka skilvirkni og hagkvæmni í starfseminni.

TM þróaði lausnina með hugbúnaðarfyrirtækinu Kolibri og kom fjöldi sérfræðinga að verkefninu. Með Vádísi hefur TM náð að skapa umhverfi þar sem upplýsingar, þjónusta og tækni vinna saman segir jafnframt í tilkynningunni og að lausnin bjóði upp á aðgengilegt og einfalt viðmót þar sem markmiðið er að tryggja ánægjulega reynslu viðskiptavina.

Nýverið tók TM nýtt app í notkun en appið og hin nýja stafræna lausn vinna saman að því að þjónusta viðskiptavini með vátryggingar. „Það hefur aldrei verið jafn auðvelt að ganga frá viðskiptum með tryggingar, með Vádísi erum við að mæta þörfum viðskiptavina okkar með aukinni sjálfvirkniþjónustu. Lausnin boðar nýja tíma á tryggingamarkaði sem er í takt við þróun markaðarins sem er orðinn mun tæknivæddari, “ segir Kjartan Vilhjálmsson framkvæmdastjóri hjá TM.

„Þetta mun auðvelda allt ferli í tengslum við tryggingar. Við sjáum að viðskiptavinir okkar eru að nota appið í mun meira mæli og á tíma sem þeim hentar, t.a.m. er um 40% tjóna tilkynnt utan þjónustutíma sem sýnir að viðskiptavinir vilja ganga frá sínum málum þegar þeim hentar. Viðskiptavinir sem nota Vádísi þurfa t.d. ekki að koma til okkar til að fá skoðun á bílnum fyrir kaskótryggingu heldur  er tekin mynd af bílnum með TM appinu til að virkja trygginguna. Enn fremur er hægt að nota rafræn skilríki til að samþykkja tilboðog ganga frá samningnum.“