Tryggingamiðstöðin þarf að greiða VBS fjárfestingarbanka 160 milljónir króna vegna ólögmæts afsals á Nesvöllum á árinu 2009. Auk þess þarf TM að greiða VBS fjárfestingabanka eina milljón króna í málskostnað.

Nesvellir er fasteigna- og verktakafyrirtæki sem hefur unnið að byggingu íbúða fyrir eldri borgara í Reykjanesbæ.

Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 20. febrúar lýtur málið einvörðungu að riftun afsals á hlutum stefnanda í Nesvöllum ehf. til stefnda, dags. 24. nóvember 2009. Aðrir samningar er gerðir voru samhliða kaupsamningi í skuldauppgjöri aðila eru máli þessu óviðkomandi enda er engin grein gerð fyrir þeim viðskiptum er þar lágu að baki.

Málavextir eru þeir að í nóvember 2009 gerðu VBS fjárfestingarbanki hf. og Tryggingamiðstöðin hf. með sér kaupsamning um kaup TM á öllum hlutum VBS í Nesvöllum ehf. fyrir 160.250.000 krónur. Á þessum tíma átti VBS aðeins óbeinan eignarétt í hlutunum í Nesjavöllum ehf. á grundvelli handveðssamnings og var framsal hlutanna því háð innlausn hlutanna frá veðsala en sá var í skuld við stefnanda.

Kaupverð Nesvalla var metið á 160.250.000 krónur á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað og skyldi nýta hann til lækkunar á skauldar VBS við TM. TM hafði um langt skeið reynt að innheimta kröfur á VBS fjárfestingarbanka sem eru til komnar vegna lánveitingar til hans í ársbyrjun 2008 sem slitastjórn VBS telur að hafi tengst samkomulagi stjórnenda VBS og FL Group hf. um að TM skyldi kaupa hlutabréf í FL Group hf. sem skráð voru í kauphöll. TM var á þeim tíma í eigu FL Group hf.

Hlutafé í Nesvöllum einskis virði - þurfa samt að borga

VBS hafði á sama tíma ekki fjárráð til að greiða skuldina og var eignahlutur fjárfestingarbankans nýttur til að standa við skuldina. VBS varð gjaldþrota vorið 2010 og tók skilanefnd yfir starfsemi hans. Þótt eignahlutur VBS í Nesvöllum hafi á sínum tíma verið metinn í hlutafjáraukningu á genginu 1,0 og í heildina á rúmar 160 milljónir króna, þá hafa aðstæður breyst í rekstri fyrirtækisins og er verðmæti hlutafjárins nú einskis virði. TM þarf engu að síður að greiða skuldina sem tilkomin var árið 2009 ásamt dráttarvöxtum frá 24. nóvember 2010 ásamt einni milljón króna í málskostnað.