Að sögn Sigurðar Viðarsson, forstjóra Tryggingamiðstöðvarinnar, hyggst félagið eiga áfram 5,1% hlut í MP Banka en TM eignaðist hlutinn fyrir skömmu í skuldauppgjöri við VBS Fjárfestingabanka.

„Okkur sýnist að þetta passi ágætlega inn í safnið hjá okkur. Við erum með 24 milljarða í fjárfestingum og þessi hlutur er ágætis viðbót í það safn,“ segir Sigurður í samtali við Viðskiptablaðið.

Sigurður sagði að þeir hefðu hitt stjórnendur MP Banka og fengið kynningu á starfsemi hans og litist vel á.

„Okkur líður vel með þennan hlut,“ sagði Sigurður.

Aðspurður um hvort TM myndi taka þátt í fyrirhugaðri hlutafjáraukningu MP Banka sagði Sigurður að of snemmt væri að segja til um slíkt. Hann sagði að það kæmi vel til greina að taka þátt í aukningunni, a.m.k. til þess að halda sínum hlut í henni.