Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, tók nýlega við vátryggingaskírteinum fyrir tryggingum á þremur loftförum Landhelgisgæslunnar, úr hendi Óskars Magnússonar forstjóra Tryggingamiðstöðvarinnar, segir í fréttatilkynningu.

Tryggingarnar gilda frá og með fyrsta desember.

Samningurinn kemur í kjölfar útboðs Ríkiskaupa í haust, fyrir hönd Landhelgisgæslu Íslands, þar sem auglýst var eftir tilboðum í húf- og ábyrgðatryggingu fyrir þyrlurnar TF-LÍF, sem er af gerðinni Super Puma AS-332L1 og TF-SIF, sem er af gerðinni Dauphin II SA-365 N og ábyrgðatryggingu fyrir flugvélina TF- SYN, en hún er af gerðinni Fokker Friendship F-27. Reyndist tilboð TM lægst.

TM hefur í mörg ár tryggt stóran hluta af minni flugvélum á Íslandi. Á það bæði við um flugvélar í einkaeigu og þær sem notaðar eru í atvinnuskyni.

Um síðustu áramót tók félagið upp samstarf við QBE Insurance Group, einn stærsta vátryggjanda í heimi, meðal annars á sviði flugtrygginga, og gerir það TM kleift að veita víðtækari vernd og hagstæðari kjör en áður, segir í tilkynningunni.

Einungis tvö tryggingafélög á Íslandi bjóða tryggingar á loftförum, enda eru vátryggingar flugvéla mjög sérhæfðar og flóknar. Rekja má þá reynslu sem er innan Tryggingamiðstöðvarinnar á þessu sviði til samruna félagsins við Tryggingu hf. árið 1999 en við hann fluttist mikil þekking um tryggingar loftfara inn í fyrirtækið.