Tryggingamiðstöðin hefur sent frá sér tilkynningu sem vísar á bug frétt Viðskiptablaðsins í morgun um fjárvörslu peninga hjá VBS fjárfestingabanka.

Í tilkynningunni kemur fram að 2,3 milljarðar króna voru lagðir inn sem peningamarkaðslán hjá VBS en ekkert segir þar endurheimt þeirra fjármuna.

Viðskiptablaðið hafði greint frá því að 2,5 milljarðar hefðu farið sem lán til VBS fjárfestingabanka og hafði ekki fengið athugasemd við þá tölu þó nú segi í tilkynningu TM að hún sé 2,3 milljarðar króna.

Einnig sagði í fréttinni að peningarnir hefðu farið þangað janúar og ekki fengið athugasemd við það þó nú segi að fjármunirnir hafi verið lánaðir í febrúar og mars.

Í frétt Viðskiptablaðsins segir að ákvörðun um þessa lánveitingu hafi ekki verið borin undir stjórn TM heldur tekin af forstjóra félagsins í samráði við stjórnendur FL Group sem voru þá nýbúnir að eignast TM.

Einnig sagði að stjórn TM fékk upplýsingar um málið í september síðastliðnum sem sjórnarformaður félagsins staðfesti, sem og það að nú væri reynt að endurheimta fjármunina. Í júní sl. herti stjórnin reglur um fjárfestingastarfsemi félagsins og takmörkuðu þær áhættu á virðisrýrnun eignasafnsins.

Tilkynning TM er eftirfarandi:

Vegna fréttaflutnings af viðskiptum Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) við VBS fjárfestingabanka vil TM taka eftirfarandi fram:

TM vísar alfarið á bug fullyrðingum Viðskiptablaðsins um að fjármunum félagsins hafi varið ráðstafað með þeim hætti sem fullyrt er í frétt blaðsins frá því í morgun. TM harmar fréttaflutning af þessu tagi sem er til þess eins fallinn að gera félagið og stjórnendur þess tortryggilegt.

Laust fé TM er stöðugt í skammtímaávöxtun. Um er að ræða tugmilljarða eignir sem félagið leitast við að ávaxta með sem tryggustum hætti. Um þessar fjárfestingar gilda reglur sem fylgt hefur verið í hvívetna og eru sífellt í endurskoðun. Ávöxtun lausafjár TM er framkvæmd af sérfræðingum félagsins á ábyrgð forstjóra líkt og önnur dagleg starfsemi og er ekki á verksviði stjórnar eða eigenda félagsins.

Síðastliðinn vetur var ákveðið í varúðarskyni að hverfa frá fjárfestingum í hlutabréfum og í kjölfarið var 85% af hlutabréfaeign TM, að andvirði tæplega 14 milljarða króna, selt á tímabilinu frá og með október 2007 til og með mars 2008. TM átti því óvenju mikið af lausu fé síðast liðinn vetur sem brýnt var að ávaxta.Fjármunum var ráðstafað í margs konar skammtímaávöxtun hjá öllum helstu fjármálastofnunum landsins, svo sem Landsbankanum, Kaupþingi, Icebank, SPRON, Glitni, MP fjárfestingabanka, Straumi  Burðarás, VBS fjárfestingabanka og Saga Capital. Þessar fjármálastofnanir fjármagna starfsemi sína með þessum hætti og eigandi fjárins, í þessi tilfelli TM, er í raun lánveitandi sem er að ávaxta fé sitt. Þessar ávöxtunarleiðir gefa af sér mismunandi háa ávöxtun fyrir TM, í samræmi við áhættumat.

Í tilfelli VBS, sem er tilefni frétta Viðskiptablaðsins í morgun, var um ræða fjóra ávöxtunarsamninga, svokölluð peningamarkaðslán, sem samið var um í febrúar og mars 2008, samtals að andvirði 2,3 milljarða króna. Vextir voru á bilinu 15,4%  til 20,2%.

Eftir hrun stærstu banka landsins má telja víst að einhver hluti eigna TM í skammtímaávöxtun hefur tapast. Það kemur hins vegar TM til góða að hafa sýnt varkárni í fjárfestingum sínum og ávöxtun, m.a. með því að hafa selt nær öll hlutabréf sín sl. vetur og með því að dreifa markaðsáhættu skammtímaávöxtunar. Fjárhagsstaða TM er því eftir sem áður sterk, eiginfjárstaða félagsins er góð og fjármögnun félagins er trygg.